30.10.2007 | 15:38
Herbergisraunir
Þegar ég sótti um námið í Kína var gefinn kostur á að velja á milli herbergja, annars vegar einsmannsherbergi með sérbaðherbergi eða þá að deila baðherbergi með öðrum (tvö sérherbergi eitt baðherbergi). Ég pantaði herbergi með sérbaðherbergi, eftir mikla umhugsun, þar sem það munaði heilum 300 is.kr. á sólarhring hvað það var dýrara. Fljótlega eftir að ég hafði látið vita um þessa ósk mína fékk ég bréf frá skólanum. Þar var greint frá því að allir þátttakendur verði að fá herbergi þar sem baðherbergi yrði deilt með öðrum og að skólinn muni greiði gistinguna. Þar var einnig tekið fram að þegar við kæmum á hótelið þá yrði okkur raðað niður á herbergin.
Þegar ég skrái mig inn á hótelið á föstudag, þá er eitthvað vesen með herbergið og þeir láta mig hafa einsmanns herbergi með sérbaðherbergi, það er samt lítið tveggja manna herbergi og alveg ágætt en algjörlega laust við allt sem kallast íburð, enginn fataskápur og lítið skrifborð. Mér var jafnframt sagt að ég ætti að skipta um herbergi á sunnudag. Ég mætti því í hótelafgreiðsluna á sunnudagsmorgni til að fá nýtt herbergi. Þá skilur enginn neitt, 10 manns að afgreiða í afgreiðslunni og biðja mig að koma seinna, sem ég og geri.
Þá er ég spurð hvers vegna ég vilji skipta um herbergi og ég segi að þau hafi sagt mér að gera það, það könnuðust þau ekki við. Síðan er spurð hvort ég vilji deila herbergi með einhverjum og ég segi að ég vilji sérherbergi en deila baðherbergi, þá er ég spurð með hverjum og þegar ég segi þeim að ég hafi bara ekki hugmynd um það, þá komust þau að því að ég væri stórlega skrýtin. Einhver hvít vestræn kelling í sérherbergi vilji fá að deila herbergi bara með einhverjum, bara til að gera eitthvað. Svipurinn á þeim gaf það alveg til kynna. Ég sé þá bak við þau listann með nöfnum okkur sem erum í náminu og bendi þeim á hann og á nafnið mitt. Þá spyrja þau hvað ég ætli að vera lengi og þegar ég segi þeim það þá bara dæsa þau. Fara með listann og halda fund. Bara sjimú sja sem gaman væri að vita hvað þýðir. Eftir drykklanga stund þá er ég aftur spurð hvers vegna ég vilji skipta um herbergi. Ég segi þeim að ég vilji ekkert endilega skipta um herbergi, mér hafði bara verið sagt að ég þyrfti að skipta um herbergi. Þá spyrja þau, er herbergið ekki allt í lagi, ég segi jú og þá gera þau eitthvað við lykilinn og segja að herbergið sem ég fékk á föstudag verði bara herbergið mitt. Daginn eftir kemur til mín kona úr afgreiðslunni og segir mér að ég skuli skipta um herbergi á morgun, þ.e. í dag og viti menn ég fékk miklu betra herbergi meira að segja með stærra skrifborði, fataskáp, setustofu og svölum. Að vísu þarf ég að deila baðherberginu með stúlku frá Noregi. Loksins gat ég pakkað upp úr töskunni og komið mér almennilega fyrir.
Um bloggið
Helga Stína bloggar frá Kína
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hæ gaman að sjá síðuna þína. Ævintýrið er raunverulega byrjað.
Allir senda kveðju,
Ásta
Ásta J. Claessen (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 19:24
Takk fyrir kveðjuna. Já þetta er virkilegt ævintýri og ég upplifi nýja hluti á hverjum einasta degi. Bið að heilsa
Helga Kristín
Helga Kristín (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 00:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.