6.11.2007 | 15:25
Te
Það er mikið drukkið af tei hérna í Kína og getur það verið athöfn að fá sér te. Ég er ekki búin að fara á svona Kínverskt tehús, eins og ég hef séð í bíómyndum en í dag fór ég í tebúð. Tebúðin var nálægt franska hlutanum í Shanghai og var umhverfið allt mjög evrópskt, bara stærra og það eru rúllustigar úti sem maður notar til að geta farið upp á brýr til að fara yfir göturnar. Ég, Lena, Ragnhild og Anna Svea fórum saman. Það kom skemmtilega á óvart að konan sem keyrði leigubílinn sem við tókum er að læra ensku og á meðan á ferðinni stóð æfði hún sig á okkur og jafnframt hafði hún þolinmæði til að skilja kínverskuna okkar. Við sögðum henni allar samviskusamlega frá því hvaðan við værum, ég er búin að æfa mig vel á að segja wú lætsí bindaó (ég er frá Íslandi), en hún hafði aldrei heyrt á það land minnst, en kannaðist bæði við Finnland og Noreg. Þegar við komumst á áfangastað þá byrjuðum við á því að fara á kaffihús sem var bara alveg eins og heima og fengum okkur brauð (sem er yfirleitt ekki á boðstólum) og kaffi. Svakalega gott og svakalega dýrt miðað við verðlagið í okkar hverfi. En eftir að hafa gætt okkur á kræsingunum fórum við að versla og í þessum borgarhluta eru evrópskar stærðir, reyndar mest extra small og small en einnig stærri stærðir. En á milli fatabúðanna rákumst við inn í tebúð og þvílíkar móttökur. Ég og hinar líka vissum ekkert um te. En nú fengum við að vita allt um te. Teið sem stúlkan sagði að væri vinsælast núna og væri svakalega gott fyrir okkur heitir pour (eða hún bar það þannig fram) og er betra eftir því sem það verður eldra og eins er það betra eftir því hvaðan blöðin eru tekin af plöntunni. Það te er ekki gerjað en svart te inniheldur gerjuð laufblöð en ekki það græna. Þetta hafði ég ekki hugmynd um vissi bara að mér finnst jasmín te svo gott. Þessi stúlka sagði mér að jasmín te væri gott fyrir húðina en ég skyldi frekar fá mér hitt. Þetta hitt var reyndar miklu dýrara. Ég þefaði af þessu dýra tei og fann nú bara einhverja graslykt. Stúlkan hefur líklega tekið eftir því að mér þætti ekkert mikið til tesins koma svo hún býðst til að gefa okkur að smakka og kenna okkur að búa til te. Hún tók aðeins af teplötunni og setti í pínkulítinn ketil, setti 90°C heitt vatn yfir laufið sem hún helti af. Sagði að þetta gerði maður alltaf, hellti alltaf fyrstu lögun. Síðan setti hún aftur vatn og síaði teið í könnu sem hún hellti síðan úr í pínku litla bolla. Teið var alveg ágætt en ég fann svo sem ekki mikinn mun á því og bara tei, þá lagaði hún aftur og sagði okkur að þefa af bollunum. Jú þetta var ágætt og telykt af bollunum en ég á langt eftir í að læra að meta hinar mismunandi gerðir af tei. Síðan sagði hún okkur að maður notaði alltaf ákveðinn teketil fyrir hverja gerð af tei. Maður lagar sem sagt ekki jasmin te í katlinum sem maður gerir melrose teið í. Þetta vissi ég ekki, hélt ég væri vel sett með að eiga einn teketil heima. Ég keypti ekkert te í þessari ferð en tók nafnspjald ef ske kynni að lærði að meta te á meðan á dvöl minni stendur.
Um bloggið
Helga Stína bloggar frá Kína
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gott að vita að þú hefur það gott í kína . Kveðja Már Fiddason
Már Fidda (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 09:33
Takk fyrir kveðjuna Már. Það er gott að vera í Kína. Bið að heilsa Jóhönnu, ykkur myndi líka vel hérna.
Kveðja
Helga Kristín
Helga Kristín (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 13:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.