1.12.2007 | 13:10
Viltu hvítt eða gult
Ég er búin að vera frekar lengi hérna í Kína og það var alveg kominn tími til að gera eitthvað við hárið á mér, orðinn eiginlega hálfgerður hárvillingur. En mér hefur ekki svona alveg litist á hárgreiðslustofurnar í hverfinu séð flottar stofur niðri í bæ en aldrei pantað tíma. En í dag þá var bara ekki hægt að bíða lengur og ég pantaði tíma á hótelinu þar sem ég bý núna, en ég flutti í dag. Þetta er svakalega flott hótel og því hlaut að vera svakalega flott hárgreiðslustofa. Jæja ég mætti og var svona eiginlega hætt við, þau kunnu eiginlega enga ensku. Ég lýsti fyrir þeim hvað ég vildi gera og hárgreiðslumaðurinn var svo kátur að hann valhopaði um stofuna, örugglega ekki oft sem hann fær að vinna með svona ljóst hár. Þegar starfsfólkið var búið að skilja að það sem ég vildi var að fá eitthvað af strípum, bara alveg eins og ég væri með og bara klippa smá, þá var ég spurð hvort ég vildi vera með hvítt eða gult hár. Ég var nú bara að spá í að fara þar sem ég kannast hvorki við að vera með hvítt né gult hár. En ég ákvað nú samt að vera aðeins lengur, yrði líklega ekkert auðveldara á næstu stofu. Ég sagði þeim að ég vildi vera með hár eins og ég væri með og það væri ljósbrúnt. Þá var komið með litaspjald og já ég vildi vera með strípur svona mitt á milli þess að vera brúnar og ljósar. Hárgreiðslufólkið virtist alveg skilja það. Núna þurfti að semja um verðið, ég var spurð hvort ég vildi besta efnið í hárið á mér (sem var loreal) eða feyk loreal eða eitthvað sem væri mjög ódýrt. Þetta var algjörlega nýtt fyrir mér, heima þá eru bara notuð bestu efni, ég hef aldrei verið spurð hvort ég vildi eitthvað almennilegt í hárið á mér eða þá bara eitthvað rusl. Ég spurði um verðið og fannst það fáránlega dýrt en þá mátti semja um það og niðurstaðan var að nota besta efnið. Hárgreiðslumaðurinn var orðinn virkilega spenntur og byrjaði að blanda og það tók óralangan tíma. Ég minnist þess ekki að hafa orðið vitni af annarri eins blöndun nema í gamla daga þegar ég var að kenna verklega efnafræði. Svo byrjaði hann að setja litinn í og það var að sjálfsögðu ekki gert eins og heima þar sem það er allt öðruvísi hérna. Fyrst setti hann litinn í strípum í hárið, svo blandaði hann eitthvað og setti á milli álpappírsins og svo enn önnur blöndun og sett í það sem eftir var. Þetta tók örugglega rúmlega klukkutíma og aumingjans hárgreiðslumaðurinn var svo lítill að hann náði varla upp á hausinn á mér þó svo að hárgreiðslustólinn væri í lægstu stöðu og hann væri standandi. Eftir þetta átti ég að bíða í 20 mínútur og fékk blað til að skoða. En þá byrjaði hann að nudda á mér axlirnar svo ég skoðaði lítið blaðið þar sem hann nuddaði á mér axlirnar og handleggina í þessar 20 mínútur. Þá var kominn tími til að skola hárið og venjulega sest maður nú bara í stól og hárið er skolað en hérna var ég látin leggjast á bekk með höfuðið á einhverskonar fati og hann tók við að skola á mér hárið í hálftíma. Þá fór ég aftur í stólinn og þar setti hann hárnæringu í hárið á mér og nuddaði á mér höfuðið í annan hálftíma. Ég var orðin frekar leið en þetta var að verða búið. Aftur á bekkinn skolað og loksins tók hann sig til og fór að blása á mér hárið og klappa því um leið. Klippti smá og viti menn ég er bara mjög ánægð með hárið á mér. Það er dekkra en venjulega, kannski ég hafi bara verið komin með hvítt og gult hár. En þetta heppnaðist mjög vel en tók rúmlega fjórar klukkustundir.
Um bloggið
Helga Stína bloggar frá Kína
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.