Hátt uppi

Hæ, Addi hér. Við fórum um daginn upp í næst hæsta húsið hér í Shanghai sem kallast Jin Mao turninn. Hæsta húsið í Shanghai og í heiminum er hinum megin við götuna og er í byggingu, verður tilbúið í mars á næsta ári. Hef séð það á Discovery í þáttum yfir verkfræði og þessháttar. Meiriháttar reynsla fyrir sveitamanninn frá Eyjum þar sem húsin þykja mjög há ef þau eru 4 hæðir. Fórum auðvitað á barinn sem er á 87. hæð og fengum okkur smárétti. Urðu að skipta 2var um lyftu á leiðinni upp því ef það væri aðeins 1 lyfta alla leið þá yrðu vírarnir svo langir og því of þungir fyrir mótorana. Á 46. hæð sem við skiptum um lyftu er hótel á nokkrum tugum hæða upp. Þar fyrir ofan er svo útsýnisbarinn og veitingahús. Fengum dúndrandi hellu fyrir eyrun á leiðinni upp í lyftunni vegna hæðarbreytingarinnar. Erum á leiðinni heim, mun sakna Shanghai. Læt fylgja með nokkrar myndir af turninum og húsinu við hliðina.

Hæsta bygging í heim, séð frá 87 hæðSvakalega háttJin Mao hægra megin, hæsta bygging í heimi vinstra megin

Ísland á morgun, Vestmannaeyjar á hinn.

Þá er Kínaævintýrinu alveg að ljúka. Við erum búin að pakka mest öllu dótinu. Ótrúlegt hvað það safnast að manni dótið, við sendum allar bækurnar með pósti, svona aðeins til að létta á þessu. Síðustu viku höfum við verið að kaupa jólagjafir og eru þær allar innpakkaðar, komnar ofan í tösku. Við erum búin að hafa það svakalega gott, það er mjög jólalegt hérna. Mikið skreytt og jólalögin hljóma allsstaðar. Annars er allt svo uppljómað að það þarf nú ekki mikið af jólaskrauti. Samt halda Kínverjar ekkert upp á jólin en eru samt hrifnir af skrautinu og tónlistinni. En á morgun tökum er það flug til London og þaðan beint heim til Íslands og síðan næsta dag heim til Eyja, beint heim í jólin og það verður notalegt.

Niðri á NanjingVið jólatréið ásamt tveimur kínverskum félögum á HótelinuÁ hæsta bar í heimi, 87 hæðHairy crabs, smakkast vel en Adda fannst þetta líkjast of kónguló og hafði ekki lystÁ japanska staðnum, grillin eru í borðunumAlltaf veislaFyrsta skipti sem ég sé jólafílUpphaldið, susi

Misjöfn eru kjörin

Addi hér. Þó Helga sé byrjuð að blogga aftur þá ætla ég allavega að bæta allavega einu inn þar sem ég sagðist í síðasta bloggi ætla skrifa meira. Misskiptingin milli ríkra og fátækra hér er ótrúlega mikil. Meginþorri fólks hefur um 10.000 kr. í mánaðarlaun og er afar mikið af betlurum í sumum hverfunum hér. En hinsvegar sér maður glæsilegar verslanir, bíla, hús og vörur sem kosta mun meira en heima. T.d. er verið að auglýsa íbúðir í Pudong hverfinu sem er við miðbæinn og er leiguverðið frá kr. 250.000 á mánuði og sér maður mun hærra. Fór í búð um daginn, Carrefour sem er með innfluttar vörur. Okkur var farið að langa í vestrænt snakk og þ.h. Verðlagið þar var eins og á Íslandi og var ekkert mál að eyða 1 kínverskum mánaðarlaunum á ½ tíma. Verslunin er í Gubei hverfinu en þar býr mikið af Japönum og útlendingum. Allir í afgirtum hverfum með gaddavír og rafmagni ofaná steinveggjunum, og standa hús þar sem eru eftirmyndir af Grískum hofum og þaðan af flottara. Við svona aðstæður er von að reynt sé að ná pening af okkur “ríku” útlendingunum. Notaðar eru ýmsar aðferðir við það, t.d. er sett upp yfirleitt 3falt verð á allar vörur í ýmsum mörkuðum og á maður síðan að prútta. Mér gengur það yfirleitt vel enda hef ég gaman af því og lít á það sem leik og hluta af kaupunum. Önnur aðferð sem Helga lenti í er að skóburstarar klína áburði á skóna þegar maður gengur fram hjá þeim og bjóðast síðan til að þurrka hann af og pússa skóna og setja síðan upp himinháar upphæðir fyrir, þá er bara að sýna hörku og láta ekki spila með sig. Algeng aðferð sem einnig og búið að vara við í fjölmiðlum hérna eru “skólastúlkutrikkið”. Felst það í því að 2 stelpur á menntaskólaaldri gefa sig á tal við ferðamenn. Saklausa útgáfan af því er að þær þykjast vera listnemar frá borg í nágrenni Shanghæ og eru að halda sýningu á verkum sínum og vilja endilega sýna verkin og selja ódýrt svona fyrir ferðakostnaði og þessháttar. En þær eru bara ráðnar af búðareigendum til að draga fólk inn í búðirnar sem selja myndir og fá það til að kaupa. Grófustu dæmin eru þegar þær þykjast vera enskunemendur og bjóðast til að fylgja fólki ókeypis um og sýna því borgina svona til að æfa sig í enskunni. Það endar yfirleitt með því að fólk er tælt eitthvað sem það er síðan rænt eða þá það er platað inn á tehús eða veitingastaði og svo er óspart tekið út á ferðamanninn og situr hann oft uppi með reikning upp á tugi eða hundruði þúsunda. En 99% fólks hérna er yndislegt og er bara gaman að umgangast og eiga viðskipti við. Læt fylgja með myndir frá Shanghai Museum sem við kíktum á í dag.

Margir voru frekar ófrýnilegirGömul fiskveiðiskip frá TaiwanRúllustigarnir í safninu

Úthýsingunni lokið-myndir frá síðustu viku

Þá er ég búin að ljúka náminu við Fudan, náði að skila ritgerðinni í gær og var það mikill léttir. Þá er bara að vona að útkoman verði í lagi, en það er búið að segja okkur að það sé mjög erfitt að fá háar einkunnir hérna, meira segja búið að segja okkur að það þyki gott að fá C (mér finnst það nú frekar dapurt). En það kemur í ljós á nýju ári hver útkoman verður. Auðvitað hélt ég upp á það að vera búin, fyrst fór ég með Adda í búðir og keyptum við eitthvað af jólagjöfum en aðallega var ég nú að kaupa mér skó (geðveika) og skartgripi (mjög flotta). Síðan fórum við út að borða á frábæran japanskan stað. Það var í fyrsta skipti sem Addi fór á japanskt hlaðborð hérna í Kína, en það virkar þannig að þú færð matseðilinn og svo bara velur þú allt sem þér langar í bæði mat og drykk en borgar bara ákveðna upphæð. Þú mátt alveg vera eins lengi og þú villt og fá þér eins mikið og þú getur í þig látið og allt hvert öðru betra. En þó svo að ég hafi verið mjög upptekin við ritgerðarskrifin undanfarnar vikur og það upptekin að ég varð að úthýsa heimasíðunni minni(Addi skrifaði) þá hef ég nú samt gefið mér tíma til að vera með Adda og sýna honum það markverðasta í borginni og ég skrifaði jólakortin. Einnig vorum við með Lucíu kvöld í skólanum fyrir Svíana (það er nú bara einn), en þá hittumst við útlendingarnir og þeir Kínverjar sem eru að nema norræn fræði og stjórnmálin og stjórnsýsluna með okkur. Kom mér á óvart hvað það voru fáir vegna þess yfirleitt er alltaf svo mikið af fólki alls staðar.

Addi kom með blað um Ísland fyrir mig handa kínversku samnemendum mínum. Það er búið að vera frábært að sýna þeim, þeir eru flestir búnir að hitta forsetann okkar og hafa mikinn áhuga á landi og þjóð. Þeim fannst bara fyndið þegar ég sýndi þeim á kortinu hvar ég byggi. Finnst skrýtið að velja sér svona lítinn stað til búsetu. Eins fannst þeim fyndið að við skyldum borða lunda, héldu að þetta væru ekki raunverulegir fuglar með þetta nef. Flestir kínversku samnemdur mínir stefna á áframhaldandi nám í Noregi eða Svíþjóð og geta þeir fengið til þess  styrki frá þarlendum stjórnvöldum. Til dæmis fá þeir tveir bestu sem voru í náminu með mér styrki til að dvelja eina önn við Háskólann í Bergen. Ég sé alveg á þeim að Ísland heillar og væri gaman að með nýlegu samstarfi við Fudan yrðu til styrkir handa kínverskum nemendum. Sumir eiga náttúrlega mjög efnaða foreldra að en flestir eru mjög fátækir og hafa komist í Fudan vegna þess að þeir skara sérstaklega fram úr í námi. Þeir hafa enga möguleika á að fara til annarra landa í nám nema þeir fá til þess styrk.

Ég við Maó styttuna í háskólagarðinumAddi við Maóstyttuna í háskólagarðinumAðalbygging Fudan háskóla, tveir turnar hvor um sig 35 hæðirÞjónustustúlka á andarstaðnum sem við fórum á um daginnÞað væri gaman að vita hvað var verið að auglýsa í háskólagarðinumEinn af réttinum á japanska hlaðborðinuNúna var hún að þvo sér um hárið í gfænmetisbalanumLúsíúrnar

 Það er í lagi að vera með hunda með sér á veitingahúsunumEngill fyrir utan kirkju

Veitingahúsin sérstök

Addi hér. Gaman að fara á veitingahúsin hérna, bæði eru þau fjölbreytt og ekki skemmir að verðið er afar lágt. T.d. kostar 3 réttað á kínverskum stað með drykkjum 300 krónur á mann en heldur dýrara á 5* hótelunum og stöðum með evrópskan mat og umhverfi. Fórum t.d. í gær á steikhús sem býður upp á nautakjöt frá Nýja Sjálandi. Fékk mér T- Bone sem var ½ kíló og kostaði steikin þúsund kall á mann með ótakmörkuðu salatbar, súpu, desert og gosdrykkjum. Á sumum kínversku stöðunum getur fólk ekki talað saman nema hrópa á hvort annað, svo mikill er hávaðinn í starfsfólkinu, það er flautandi, syngjandi, kallandi á milli sín og ef rólegt er þá situr það í matsalnum og spilar og reykir með tilheyrandi hrópum og köllum. Sá furðulegt á einum þekktasta Pekingandarstað Shanghai. Við vorum frekar seint um kvöld og var greinilega byrjað að ganga frá í eldhúsinu og var trillað með öskutunnurnar eins og ekkert væri í gegnum matsalinn og þeir sem sáu um það ræsktu sig og hræktu í gólfið eins og reyndar er alsiða hér, maður verður stundum að valhoppa yfir hrákaklessurnar á götunum. Svo var gólfið greinilega orðið fitugt eftir kvöldið og renndu þjónarnir sér í fótskriðu um allt og höfðu frekar gaman af greinilega. Annars er allt áberandi hreint hérna þar sem ferðamenn halda sig og maður getur alveg treyst matnum og þ.h. Fullt af fólki um allt að þrífa og sópa, hvort sem er úti á götu eða innandyra. Tók t.d. eftir rúllustigunum sem eru hér um allt, allstaðar eru þrepin og rifflurnar í þeim gljáandi eins og þeir séu nýir, annað en heima. Skrifa næst um verslanirnar, misskiptinguna og hvernig er stöðugt verið að reyna kroppa pening af túristum á heiðarlegan jafnt sem óheiðarlegan hátt.

Lífið og tilveran

Jæja nú er langt síðan að Helga hefur bloggað þar sem það er svo mikið að gera hjá henni í náminu og bað hún mig (Addi) að setja smá pistil inn og geri ég það fúslega. Þetta þjóðfélag er allt öðruvísi en heima. Sem gesti kemur manni margt undarlega fyrir sjónir og langar mig að minnast á nokkur atriði sem standa þar uppúr. En aðallega varð ég mest hissa á því hvað frjálsræðið er mikið hérna og reglugerðaverkið sem maður hefði haldið að fylgdi kommakerfinu yrði mun sjáanlegra, en síður en svo. Hér er fólk voða afslappað og virðist gera það sem það vill þegar því dettur það í hug. Við hittum gamlan mann sem gaf sig á tal við okkur þar sem við vorum stödd í gamla bænum og verið var að rífa hús til að rýma fyrir háhýsum. Hann var enskukennari en er á eftirlaunum. Hann var afar ánægður með að verið væri að rífa gamla tímann í burtu og byggja upp ný og betri hús og íverustaði. Hann sagði eins og við höfum lesið um að fólk væri afar bjartsýnt með framtíðina og möguleika sýna. Umferðin hér er kapítuli út af fyrir sig, vegakerfið glæsilegt og sögðust borgaryfirvöld hafa orðið að flytja um eina milljón íbúa til að rýma fyrir því, og ekki er allt búið enn. Gaman að ferðast með leigubílunum og sjá hvernig þeir troða sér í gegnum þvöguna. Enginn af þeim með öryggisbelti eða loftpúða og það er sérstök tilfinning að vera á 150 km. hraða á hraðbrautinni laus í bílnum og bílstjórinn kannski talandi í farsímann á meðan. Urmull er af hjólum, vespum og mótorhjólum og eru þau hvort sem er á sérstökum akreinum, innan um bílana eða bara upp á gangstéttum og sama sagan þar með öryggið, enginn með hjálma. Enda sá ég í bók um borgina að um 600 manns deyja á dag í landinu í umferðinni, já 600 á dag. Meira seinna t.d. um hreinlætið, matinn, húsin, verslanirnar og fólkið.

Ísland besta landið

Komið nýtt byggingarsvæðiÍ gönguferðinni í gær hittum við mann þegar við vorum að taka myndir af einu byggingarsvæðinu hérna í miðbænum. Gömlu húsin farin og verið að gera klárt að byggja nýtt. Maðurinn hafði kennt ensku við framhaldsskóla hérna í borginni og var að halda enskunni sinni við og spjallaði  mikið. Hann sagði okkur hvað hann væri ánægður með að verið væri að rífa þessi gömlu hús og byggja ný í staðinn. Kemur kannski ekki á óvart því við erum búin að ganga í gegnum borgarhluta þar sem einungis er eitt almenningssalerni fyrir heila götu og vaskarnir sem eru ekki margir eru úti á götu. Annars er athyglisvert að fólk virðist vera mjög ánægt með framkvæmdir stjórnvalda og efast ekki um þær. Ef stjórnvöld ákveða að gera eitthvað þá er það það besta sem hægt er að gera, það er ekki rökrætt um aðgerðirnar. Maðurinn vildi náttúrlega vita hvaðan við værum og vissi alveg að á Íslandi væri best að búa í öllum heiminum. Skiptir greinilega miklu fyrir kynninguna á Íslandi að vera best.

Addi að borða nautakjöt með prjónumGönguferð gærdagsins endaði þar sem flokkurinn var stofnaður, en í dag er þar fjöldi veitingastaða af bestu sort. Addi fékk að velja og valdi hann japanskan stað sem var bara frábær. Reyndar bara prjónar en Adda fannst það lítið mál að borða nautasteikina sem hann fékk sér með prjónunum.  Það verður að segjast að Addi er að velja svolítið öðruvísi veitingastaði en ég hef gert á meðan að dvöl minni hefur staðið hérna, hann hefur næmt auga fyrir þessu.

Addi fyrir framan húsið þar sem fyrsti flokksfundur CCP var haldinn


Nóg við að vera

Addi með matseðilinnÍ gær fórum við hjónin í gönguferð og gengum svokallaða antikleið sem líst er í Lonley Planet. Áður fórum við og fengum okkur að borða og fórum á stað sem ég hef oft farið á í hádeginu og býður upp á mjög sérstaka rétti. Mér fannst ekki hægt að Addi búinn að vera hérna í heila þrjá daga og hafði alveg komist upp með það að borða eingöngu með hnífapörum og skilja matseðlanna. Þetta er ekta staður, matseðillinn eingöngu á kínversku og þú átt að merkja við það sem þú villt. Addi hélt kannski að ég vissi eitthvað hvað stæði þarna en því fór fjarri, þegar við höfum farið þarna þá merkjum við bara við nógu mikið og eitthvað hlýtur að vera ætt. Við fengum eina fjórtán rétti og þeir brögðuðust misjafnlega en Addi borðaði með prjónum og tókst honum vel til. Fyrir öll herlegheitin þurftum við að borga 650 krónur en auðvitað fengum við okkur bjór með. Þá var komið að gönguferðinni og lá leiðin niður í gamla borgarhlutann. Það er margt að sjá en hvimleitt hvað það eru margir sölumenn sem vilja endilega selja manni ekta lolex úr (segja ekki R) eða Gucci, Prada. Endalaust lukka lukka chípa chípa (sem þýðir komdu og sjá það er ódýrt).  Við lögðum leið okkar í mörg hof og það var frábært að sjá þegar þeir eru að fórna gervipeningum og heilum pappahúsum. Auðvitað vöktum við athygli og einum stað þar sem við stóðum þá kom að fólk og var að fara að taka myndir. Addi að sjálfsögðu kurteis, færði sig úr myndinni, en ég vissi alveg að myndefnið værum við og leyfði fólkinu að taka myndir af sér með mér en forðaði mér fljótlega því auðvitað vildu allir fá mynd af sér með mér.

Verið að fórnaHelgiathöfn, okkkur sýndist að það væri verið að gefa saman fólk

Markaður

Það eru allavega markaðir hérna í Shanghai. í gær fórum við á einn svolítið sérstakan, gæludýra, skordýra og blómamarkað. Þar var verið að selja hvolpa og kettlinga. Páfagauka og kanínur. En einnig engisprettur og lirfur. Það var gaman að sjá þetta. Mikið af fólki og skordýrin í boxum, hænur spígsporandi um gólfin. En við keyptum ekki jólagjafirnar þarna þó svo að það hafi einn kettlingurinn gefið sterklega í skyn að hann vildi fara með okkur.

Þessi bröndótti vildi að ég keypti sigHægt að kaupa lifrur af öllum stærðum


Addi kominn til Shanghai

Addi loksins kominnAddi komst til Shanghai á tilsettum tíma, þó svo að brjálað veður hafði verið í Eyjum og Herjólfur hálf bilaður þá náði hann til Reykjavíkur. Stressið hélt áfram í London því vélinni seinkaði frá Íslandi og var alveg í það tæpasta að Addi næði vélinni til Shanghai en hann náði sem betur fer. Eftir að ég hafði náð í hann út á flugvöll, fórum við niður í bæ og ákvað ég að fara með hann á svona nokkuð öruggan stað, sem merkir nokkuð vestrænan stað. Það var komið fullt af jólaskrauti og var lítið sem minnti á Kína þó svo að við sætum beint á móti húsinu þar sem fyrsti flokksfundur Kommúnistaflokksins var haldinn. Addi varð hálf hissa, allir töluðu ensku og hnífapör. Við fengum okkur því göngu eftir matinn og fórum aðeins inn á franska svæðið á sunnudögum er það markaður. Þar er hægt að kaupa alls kyns rusl og drasl og þar á meðal lifandi snáka. Svolítið Kínverskt! En í dag þó fórum við á fatamarkaðinn eða réttara sagt efnamarkaðinn og Adda langaði ekki í neitt, ég fann reyndar sjálf ekki margt þegar ég fór fyrst, en það breyttist. Við enduðum daginn á að fara niður að Bund og að People square. Svakalega mikið af fólki og fólkið horfir svakalega mikið á mann. Addi er ekki enn farin að borða með prjónum og líst ekkert á þá staði sem ég hef borðað á. Við höfum það náttúrlega svakalega gott og erum á þessu líka flotta hóteli. Mikill munur frá Joy Inn þó svo að það hafi verið notalegt að vera þar.

Absalout jólatréiðLíka svakalega skrautleg tréAndstæðurnar miklarHægt að kaupa snákaAddi að kíkja á markaðinnAdda fannst gínurnar merkilegar

 

 


Næsta síða »

Um bloggið

Helga Stína bloggar frá Kína

Höfundur

Helga Kristín Kolbeins
Helga Kristín Kolbeins
Ég er í námsleyfi og nota það til að ljúka MPA námi mínu við HÍ. Þessa stundina er ég við nám í kínverskum stjórnmálum og stjórnsýslu við Fudan Háskóla í Shanghai.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Jin Mao 88 hæðir
  • Jin Mao hægra megin, hæsta bygging í heimi vinstra megin
  • ...-1_cimg1849
  • Svakalega hátt
  • Hæsta bygging í heim, séð frá 87 hæð

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband