1.12.2007 | 13:20
Ég er flutt
Það er búið að vera fínt á staðnum sem ég hef búið á hérna í Shanghai, maður venst því ótrúlega fljótt að vera á svona svakalegri harðri dýnu og mér finnst allt í lagi að deila baðherbergi og setustofu með henni Mörthu og við urðum strax miklir mátar. Ég hafði beðið um annað herbergi sem sérbaðherbergi frá og með deginum í dag. Addi er loksins að koma hingað til Shanghai og er væntanlegur á morgun ef hann nær vélinni frá London.
En á móti skólanum er 5 stjörnu hótel og ég gat fengið að flytja þangað. Og þvílíkur lúxus. Herbergið er risastórt og glæsilegt baðherbergi. Fólkið í móttökunni talar ensku og munurinn á þessum stað og þeim sem ég bjó á áður er virkilega mikill.Þegar ég innritaði mig á hótelið í morgun þá var tekin af mér mynd þar sem alltaf er tekin mynd af VIP gestum (en háskólinn pantaði herbergið fyrir mig,verðið er bara grín, ódýrara en svefnpokapláss heima, en venjulega er þetta hótel mjög dýrt, eins og önnur 5 stjörnu hótel á flestum stöðum í heiminum). Þegar ég kom loksins úr hárgreiðslunni var búið að taka af rúminu og setja á rúmið pöntunarblað fyrir mismunandi kodda og ilmolíumeðferðir. Já maður getur bara beðið um allskonar kodda ég þekki reyndar ekkert muninn á þeim og svo ilmolíur ( held ilmkerti, er ekki búin að panta). Hérna er boðið upp á morgunmat að eigin vali og vestrænir matseðlar á herberginum. Það á því ekki eftir að væsa um mann við skriftirnar næstu vikur.


Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2007 | 13:10
Viltu hvítt eða gult
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2007 | 05:00
Tíminn flýgur
Vikan er búin að vera ótrúlega fljót að líða, strax komin föstudagur. Á mánudaginn var vinnustofa um sautjánda flokksþing kommúnistaflokksins. Þar komu fram tíu fræðimenn og lýstu þeir skoðunum sínum á hvaða breytingum við gætum vænst á stefnu flokksins. Mjög athyglisvert og fjörugar umræður. Á þriðjudaginn var enginn skóli, stefnan var sett á klæðskeramarkaðinn og er alveg frábært að fara á þann markað. Þú getur valið úr ég veit ekki hvað mörgum efnum og þar eru tugir klæðskera. Svolítið vandamál að lýsa því sem maður vill en tekst þó yfirleitt. Síðan kemur maður aftur eftir nokkra daga og þá þarf nú yfirleitt að breyta einhverju en þó ekki alltaf. Klæðskerasaumuð föt í Kína eru mjög ódýr. Kápa kostar svona 4000 isk, silkikjólar frá 3000-5000 iskr. og jakkaföt kosta minnst 3500 iskr og síðan getur þú náttúrlega borgað mun meira. Ég hef nú samt ekki látið gera margar flíkur, það er svo lítill farangur sem má koma með heim, en sumir í hópnum hafa alveg sleppt sér og ætla bara að hafa áhyggjur af því seinna að koma flíkunum heim. Ég lét loksins verða af því að fara á Rótarý fund hérna í Shanghai. Ég hafði gert tilraun til þess en ekki fundið fundarstaðinn. Fundurinn var haldinn á glæsihóteli niður í bæ og ég skil ekki alveg hvers vegna leigubílstjórinn fann hann ekki í fyrra skiptið. Móttökurnar sem ég fékk þegar ég kom á fundinn voru alveg frábærar og fólkið yndislegt. Það var vestrænn matur á boðstólum, sveppasúpa, lambakjöt og ísterta, allt voðalega gott. Það eru einungis 35 félagar í klúbbnum, þarf af 10 konur. Flestir eru félagarnir af erlendu bergi brotnir en þó nokkrir Kínverjar. Þeir voru mjög ánægðir með að fá loksins íslenskan félagsfána en það hefur enginn íslendingur áður heimsótt þennan klúbb. Fundarformið var alveg eins og heima og kynntist ég nýju og skemmtilegu fólki sem ég á örugglega eftir að hitta aftur.
Í gær fórum við á japanskan veitingastað, frábært susí og allt sem þú vildir. Þetta var hlaðborð sem virkaði þannig að þú fékkst matseðil og svo pantaðir þú bara það sem þig langaði í (það voru myndir af réttunum og seðillinn var líka á ensku). Sama með drykki, pantaðir bara það sem þig langaði í . Verðið var fast, allt sem þú villt 150 rmb (1400-1500 iskr). Við vorum mætt snemma og fórum seint. Kínverjarnir voru yndislegir eins og alltaf og fannst alveg fáránlegt að borða óeldaðan mat.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.11.2007 | 15:54
Ísland í fréttum
Það er alltaf gaman þegar maður sér umfjöllun um Ísland í fjölmiðlunum hérna. Í dag var fyrirsögn einnar fréttar í Shanghai DailyIceland leapfrogs Norway as the coolest country to live in. Þar er verið að fjalla um skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem gefin var út í fyrradag. En eins og landsmenn vita þá þykir núna best að lifa á Íslandi. Auðvitað veit ég alveg að Ísland er best í heimi, en norðmennirnir sem eru með mér í náminu eru svolítið svekktir að við skulum hafa tekið forystuna. Ég hef ekki séð skýrsluna en það athyglisvert að í fréttinni er ekkert minnst á í hvaða sæti Kína lenti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.11.2007 | 08:45
Það á að minnka mengunina
Það var ekki hægt að komast hjá því að finna fyrir menguninni í Kína í ferðalaginu í síðustu viku. Ég hélt að það væri mengun í Shanghai, en núna finnst mér loftið hérna mjög ferskt. En um síðustu helgi var tilkynnu stjórnvöld, að nú ætti að taka virkilega á í sambandi við umhverfismálin. Loftmengunina á að minnka um 20% á næstu fimm árum. Ráðamenn þeirra héraða og borga sem ekki geta framfylgt þessari tilskipun verða látnir víkja og það verður æðsti maðurinn sem verður látin fara. Það er virkilega nauðsynlegt að grípa til þessara aðgerða, því það er nánast ekki hægt að vera á þeim stöðum þar sem mengunin er slæm.
Bloggar | Breytt 28.11.2007 kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2007 | 17:58
Beijing
Við tókum hraðlestina frá ZouPing til Beijing. Ferðin tók ekki nema þrjár klukkustundir og var tíminn fljótur að líða. Við áttum pöntuð betri sæti og fór mjög vel um okkur. Þegar við komum til Beijing þá bókuðum við okkur á hótel sem er mjög nálægt lestarstöðinni. Allt í lagi með hótelið en samt enginn íburður. Við drifum okkur í bæinn og fórum á frábæran Indverskan veitingastað sem mælt er með í Lonley Planet. Daginn eftir var Beijing borg skoðuð. Byrjað á Temple of heven og það var gaman að fylgjast með fólkinu í morgunæfingunum.
Næst fór ég á torg hins himneska friðar sem er vissulega stórt. Þaðan fór ég í forboðnu borgina, en borgin liggur við torgið. Það var búið að segja mér að hún væri stór en svona stóra hafði ég ekki ímyndað mér hana. Ég hafði gaman af því að skoða borgina, en mest þótti mér gaman að skoða garðinn þar sem keisarinn fór á kvöldin til að velja sér þá konu sem hann ætlaði að sofa hjá þá nóttina. En hann svaf einungis hjá keisaraynjunni þegar það var fullt tungl. Garðurinn var mjög fallegur þrátt fyrir að í Beijing væri hávetur.
Eftir forboðnu borgina gengum við um gamla hutong hverfið og eins hafði ég mest gaman að af því að skoða garðanna. Þeir eru ofboðslega fallegir og hljóta að vera eins og listaverk á sumrin.
Um kvöldið fórum við og fengum okkur Pekingönd og auðvitað var hún góð enduðum daginn á að fara á barinn á Beijing hótel. En Beijing hótel er gamalt og mjög frægt hótel í Beijing. Stíllinn þar var svona aðeins annar en á okkar hóteli.
Daginn eftir var fundur í norska sendiráðinu þar sem farið var yfir tengsl norskra stjórnvalda við Kína. Það eru rúmlega fjörtíu manns sem vinna í sendiráðinu í Beijing og stendur til að fjölga um 10-15 manns strax á næsta ári. Um helmingur starfsmanna er norskur, eins eru sendiskrifstofa í Shanghai og það á að opna aðra sendiskrifstofu í Guodong héraði. Það eru yfir 200 norsk fyrirtæki skráð í Kína. Aðallega á sviðum sjávarútvegs, skipasmíðar og veiðifæragerð en kínverjar eru einnig mjög spenntir fyrir að vera í samstarfi vegna olíunnar. Eftir fundinn í sendiráðinu fórum við á fund með Otto Malmgren sem er sérfræðingur á sviði mannréttindamála hérna í Kína. Fundurinn með honum var mjög góður. Eftir fundinn drifum við okkur á perlumarkaðinn en sumir úr hópnum höfðu farið þangað deginum áður. Mikið til af perlum og alls kyns glingri þar. Daginn eftir var haldið á Kínamúrinn við fórum á Simatai múrinn, en þú getur farið á múrinn á ólíkum stöðum. Þessi staður er langt frá Beijing og því nær engir ferðamenn. Vissulega fallegt, en mikið klifur og ég verð bara að segja að fjallgöngur hafa aldrei heillað mig, sérstaklega þar sem er þverhnípt. Ég var því bara skíthrædd þegar ég var þarna uppi og leiðin niður var sýnu verri en leiðin upp.
Ferðin tók tíu klukkustundir og vorum við því ansi þreytt þegar við komum á hótelið en það þarf alltaf að borða og núna valdi ég ásamt nokkrum úr hópnum að fara á tapas stað sem var bara frábær. Góðir drykkir og enn betra tapas. Það er allt öðruvísi að vera í Beijing heldur en í Shanghai. Þessa daga sem ég dvaldi í Beijing var borgin grá og köld. Leigubílstjórnarir eru tregir til að keyra með eftir mæli og eitt skiptið þá þurftum við að athuga fimm bíla áður en einhver fékkst til þess. Þeir reyna líka að svindla á manni segja að gjaldið á mælinum sé fyrir manninn. Þeir nenna ekki að keyra manni, ótrúlega oft sem okkur var vísað út úr bílunum vegna þess að þeir bara vildu ekki keyra okkur þangað sem við vorum að fara. Og ef þeir fóru með mann eitthvert vitlaust, þá bara sjú sjú, vísuðu þeir okkur út úr bílunum. Ekkert líkt því sem ég hef kynnst í Shanghai. Eins var á sumum veitingastöðum einstaklega pirrað afgreiðslufólk, þó ekki á tapas staðnum. Borgarskipulagði er einnig mjög ólíkt, þarna eru byggingar breiðar en í Shanghai er byggt upp. En auðvitað er gaman að hafa komið til Beijing og ég sá einungis brota brot af borginni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2007 | 17:41
HanMa Tou
Nú var komin tími til að vera smá túristi og fórum við til HanMaTou þorpsins virkilega skemmtilegt þorp ef frá er talið loftið. Með skemmtilegum gömlum borgarhluta. Virkilegt líf og fjör. Það mátti heyra tónlist frá öllum húsum og eins sátu gamlir menn úti og voru að æfa tónverk.




Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2007 | 17:35
ZouPing
Nú var haldið á fund leiðtoganna í ZouPing sem er höfuðborg héraðsins sem við vorum í. Stjórnsýsluhúsið glæ nýtt og greinilegt að það eru komnir miklir peningar til bæjarins. Það var vel tekið á móti okkur og okkur sagt að ef okkur langaði að gera einhverjar rannsóknir þá stæði borgin okkur opin. Það væri vissulega spennandi að gera einhverjar rannsóknir þarna en ég gæti ekki dvalið í þessari borg lengi þar sem mengunin er yfirþyrmandi. Okkur var boðið í skoðunarferð um iðnarsvæði í borginni, fórum í rútum og skoðuðum vefnaðariðnaðarhverfi. Svakalega stórt enda eru 130 þúsund manns sem vinna þarna. Við sáum reyndar ekkert fólk frekar en fyrri daginn. Ljósmyndararnir voru mættir til að taka myndir af okkur fræga fólkinu.
Bæjarstjórinn bauð okkur í mat og það var ekkert slor, hann bauð okkur á hótel þar sem Carter fyrirverandi Bandaríkjaforseti hafði dvalið á fyrir nokkrum árum. Greinilegt var að ráðamenn bæjarins voru mjög stoltir af þeirri heimsókn. Þeir töluðu mikið við okkur um viðskipti og vildu að við færum með þau skilaboð heim að þetta væri rétti staðurinn til að stofna verksmiðjur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2007 | 17:28
ShiHu
Næst var haldið í ShiHu þorpið og þar hittum við leiðtoga þorpsins. Þeir hafa nýlega endurbyggt þorpið og býr fólk í nýjum húsum. Það hafa nýlega farið fram kosningar og þegar við spurðum leiðtogann hvers helstu kosningamálin hefðu verið þá svaraði hann okkur því að það hefði verið að ná kosningu. Sú stjórn sem er við völd hefur verið óbreytt síðastliðin þrjú kjörtímabil, en hvert kjörtímabil eru þrjú ár. Kosningar fara þannig fram að fyrst er forval, fólk býður sig fram og þurfa að vera a.m.k. tveimur fleiri í framboði heldur en sæti segja til um. Eftir forval eru síðan aðrar kosningar og þá kemur flokkurinn einnig að kosningunum en í þessu þorpi eru einungis 29 aðilar flokksbundnir í CCP. Flestir í þorpinu eru með vinnu hjá verksmiðjunni en einnig eru mörg þúsund aðfluttir Kínverjar með vinnu í verksmiðjunni. Aðfluttu Kínverjarnir eru ekki með lögheimili í þorpinu og því ekki með kosningarétt, þeir búa ekki í nýju húsunum.
En móttökurnar í þorpinu voru mjög góðar, fólk safnaðist í hópa á götuhornum til að fylgjast með okkur og enn voru ljósmyndarar með í för. Þeir tóku myndir af okkur og eins tóku þeir myndir af öllu því sem við tókum myndir af. Við skoðuðum gömlu húsin og maður þakkaði nú bara fyrir að fólkið hafði flutt. Þorpsbúar höfðu boðið okkur í mat (auðvitað borguðum við) og skiptum við okkur í nokkra hópa og fórum inn á heimili fólksins í nýju húsunum. Öll nýju húsin eru skipulögð eins. Maður kemur inn um svakalega stóra hurð inn í svona forgarð og er hluti hans yfirbyggður, í yfirbyggingunum eru m.a. geymslur, eldunaraðstaða og klósett. Í rauninni er þetta engin eldunaraðstaða heldur hlóðir sem eldað er á og klósettið er hola, reyndar með postulíni en greinilega aldrei þrifið. Það er engin baðaðstaða og var mér sagt að það væri almenningsbað í þorpinu. Undir berum himni er krani og var það eina vatnið í húsinu. Það sem kom mér hvað mest á óvart var hvað lofthæðin var mikil í húsinu, það var ískalt engin hiti og maður þurfti að vera í úlpunni inni en samt var manni kalt.
Húsmóðirin var að undirbúa matinn og voru einnig margar vinkonur hennar að hjálpa henni. Hún bauð okkur te og sólblómafræ þegar við komum og síðan fór hún ásamt vinkonum sínum að kenna okkur að búa til dumplinga. Dumplingar eru deig sem sett er í fylling, við sátum á hækjum okkar við að búa til þessa dumplinga og vildi húsmóðirin að nóg væri til. Vinnuaðstæður voru fáránlegar fyrir vesturlandabúa og nýja eldhúsið sem húsmóðirin var svo stolt af var nú einstaklega fábrotið. Í rauninni ekkert eldhús. Það var eldað og eldað, margir réttir en samt aðallega þessir dömplingar og síðan réttir með asnakjöti og ferskt grænmeti. Það voru Kínverjar með okkur svo við gátum spjallað við fólkið. Samskiptin voru eðlilega mjög stirð í byrjun, en döplingagerðin tók langan tíma. Þegar við fórum að spjalla um fjölskylduhagi kom berlega í ljós að þetta fólk er ekkert öðruvísi en annað fólk, það var mjög forvitið um okkar hagi. Þegar konurnar komust að því að ég ætti 21. árs gaman son urðu þær svakalega hissa og trúðu því bara ekki, héldu nefnilega að ég væri bara tuttugu og eitthvað sjálf. Ég sagði þeim hvað ég væri gömul og þær urðu enn meira hissa, kannski ekki nema von. Húsráðendur voru á mínu reki og þetta er bara gamalt fólk. Konan kom við hárið á mér og var greinilega hissa á hvað það er mjúkt og hún var enn meira hissa að koma við hendurnar á mér. Við spjölluðum um fjölskyldustefnu stjórnvalda, en þau hjón eiga þrjár dætur. Í þessu þorpi máttu eiga tvö börn ef það fyrra reynist vera stúlka. Þeim langaði svo í dreng að þau ákváðu að reyna í þriðja sinn og var það leyft en þau þurftu að greiða 5000 rmb sekt, til samanburðar má geta að húsið sem þau búa í kostaði 18000 rmb. Sektirnar fyrir að eignast fleiri börn en leyfilegt er eru reyndar yfirleitt mun hærri, mér skilst að lægsta sektin í dag sé 66000 rmb en að yfirleitt sé miðað við að fólk greiði þrefalda ársinnkomu fyrir auka barnið. Ef aukabörnin eru fleiri en eitt þá eru sektirnar að mér skilst mun hærri. Það er reynt að koma í veg fyrir fleiri aukabörn með því að setja fólk í ófrjósemisaðgerðir og eins eru fóstureyðingar leyfðar alveg þangað til barnið er fætt. Réttindi barna miðast við að þau séu fædd.
Maturinn var í lagi, ekkert góður en ég sleppti ferska grænmetinu, það gerðu ekki allir og þeir sem borðuðu það áttu eftir að fá hressilega í magann. Húsmóðirin og vinkonur hennar voru í eldhúsinu meðan að við gestirnir ásamt karlmönnunum borðuðum fram í stofu. Við vorum spurð spjörunum úr hvað okkur finnst um Kína og þegar talið barst að pólitík átti ég frekar erfitt með að halda brosinu en það tókst. Með matnum var borið fram brennivín og það yljaði manni aðeins. Reyndar var það alveg svakalega vont en það var svo kalt að það var í rauninni ekki um neitt að velja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2007 | 17:08
Heimsókn í skóla
Kínverjar byrja í skóla þegar þeir eru 7 ára og er skyldunám í 9 ár. Kínverjar eru ekkert mikið fyrir að gera úttektir eins og við erum alltaf að gera, en skólarnir hafa þó verið teknir út og skýrslan sem gerð var af því tilefni sýndi ekki góða mynd af skólakerfinu. Í flestum skólum er aldursskipt, yngra stig og eldra. Yngra stigið eru fyrstu 5 árin og síðan tekur eldra stigið við. Við heimsóttum skóla á eldra stiginu. Og enn og aftur, ekkert fólk. Við sáum hvorki né heyrðum í nokkru barni þegar við gengum um skólalóðina, mötuneytið og ganga skólans.
Það var vel tekið á móti okkur og auðvitað voru ljósmyndarar sem voru með í för og mynduðu okkur í bak og fyrir. Eftir að hafa skoðað skólann fórum við á hátíðarsalinn og þar var skólastjórinn með smá tölu og svaraði fyrirspurnum, mjög vinalegur maður. Síðan var komið með nemendur inn í salinn (tíu krakkar) og máttum við tala við þá. Yndælis krakkar en að sjálfsögðu mjög feimin við okkur. Þá héldum við að heimsókninni væri lokið, en sem betur fer fengum við nú að fara inn í skólastofu. 60 nemendur í bekk, sátu við þrjú langborð hvert á móti öðru, einn kennari. Það var ótrúlegt að fylgjast með kennslunni, það var ensku tími og fór kennarinn yfir námsefnið, hefðbundin innlögn. Krakkarnir lásu síðan upphátt, öll saman, þetta var eins og fuglabjarg. Kennarinn spurði síðan spurninga og fóru flestar hendur á loft til eftir hverja spurningu. Sá nemandi sem var valin til að svara stóð upp úr sæti sínu og svaraði hátt og skýrt.



Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Helga Stína bloggar frá Kína
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar