Heimsókn á elliheimili

Elliheimilið í bænum er rekið af XiWang félaginu og geta eldri borgar sem hafa lögheimili í bænum fengið þar inni. Búsetan er frí. Þar eru 50 herbergi og til stendur að byggja annað heimili fljótlega. Þegar við komum inn á heimilið tók maður eftir því sama og í verksmiðjunni, engin á ferli. En við fengum að skoða tvö herbergi, annars vegar eins manns og hins vegar fyrir hjón og var allur aðbúnaður mjög góður. Allt mjög hreint og snyrtilegt og meira að segja venjulegt klósett. Fólkið var mjög vinalegt og vildi endilega bjóða okkur í te en því miður var það ekki hægt því þurftum að halda áætlun.


XiWang

Fyrsta daginn komum við til ZouPing, það fyrsta sem maður tók eftir þegar maður kom úr lestinni var hvað það var svakalega kalt og loftið. Það er ekki auðvelt að lýsa því, en einn í hópnum lýsti því þannig að þetta væri svipað og vera í skítugu, drulluskítugu fiskabúri og lykt af loftinu var eins og lyktin úr slíku búri. Eftir að við höfðum innritað okkur á hótelið þá fórum við í heimsókn til XiWang félagsins en það er stórt matvælafyrirtæki, framleiðir m.a. sykur og matarolíur. Við fórum í rútuferð um vinnusvæðið sem var stórt, og sáust fáir starfsmenn á ferli, en við tókum eftir því að inni í húsunum var fólk á bak við gardínur að fylgjast með.

Þeir kveiktu á gosbrunnunum þegar við komum að fyrirtækinu. 

Við fórum inn í einn vinnslusalin, enn og aftur vakti athygli hversu fátt starfsfólk var á ferð en þeir sýndu okkur stoltir færibandið. Þetta fyrirtæki var áður í ríkiseigu en hefur nú verið einkavætt. Það vinna rúmlega 6000 manns þarna og launin fyrir sérhæfðan verkamann eru rúmar 500 iskr. á dag. Þeir vinna 8-10 tíma alla daga vikunnar og fá engin félagslegréttindi, veikindaréttur er með öllu óþekktur, almennur verkamaður er með 300 iskr. á dag. Fyrirtækið bauð okkur í mat og það var ekkert til sparað, vel veitt á mjög huggulegum matsölustað, fengum m.a. djúpsteiktan ís. Við höfðum haldið að við færum í mat í mötuneyti starfsmanna en svo var ekki, en starfmenn geta þó keypt sér mat þarna á mjög vægu verði.
Borðskreytingin var gullfiskur. vorum fyrst að spá hvort við ættum að éta fiskinn.

Komin heim

Ég er komin heim til Shanghai eftir viðburðaríka viku. Já heim til Shanghai, skrýtin tilfinning að í fyrradag þegar ég var í Beijing þá langaði mig virkilega til að komast heim og þá var það ekki heim til Eyja, nei heldur langaði mig bara virkilega að komast aftur til Shanghai. Því var eins farið með flesta í hópnum og sumir drifu sig upp á flugvöll og tóku næstu vél til Shanghai. Ég fór hins vegar með lestinni og kom í morgun. En ferðalagið var ólýsanlegt. Við fengum að skoða svo margt, áttum marga fundi með ráðamönnum og eins var farið í skoðunarferðir. Það er allt í lagi að ferðast með lest í Kína en það er víst ekkert svo auðvelt að fá ódýra lestarmiða, lestarnar eru fullar af fólki, en við vorum annað hvort með bókaðar kojur eða sæti.

Kojurnar eru allt í lagi, allavega fannst mér það vön að ferðast með Herjólfi og er þá yfirleitt í almenningi, en hérna eru kojurnar á þremur hæðum. Rúmin voru hrein en það sama var ekki hægt að segja um salernin allavega þegar líða tekur á nóttina, hreint út sagt viðbjóðsleg. Annars finnst mér allt í lagi með þessar holur ef næsti maður eða menn hafa ekki skilið einhvern glaðning eftir handa manni til að horfa á. Mér finnst best að vera í rúllukragabol og bretti þá kragann upp fyrir nef, þá finn ég ekki skítafýluna. Ég hef ekki lennt í því að fara á salerni þar sem ekki eru skilrúm á milli holanna en þau eru víst enn algeng í sveitum landsins, en á einni brautarstöðinni sem við komum á var boðið upp á “Computer toilet” auðvitað fór ég þangað og spáði í hvað í ósköpunum það gæti verið og ég verð bara að segja að menn hafa hugmyndaflug. Þetta var klósett, frekar stórt, á upphækkuðum palli og búið að setja inn í það glæran plastpoka, mér verður bara illt þegar ég hugsa til baka, hvílíkur viðbjóður, pokinn hafði greinilega verið lengi í, ég lýsi þessu ekki nánar.

Hótelin sem við gistum á voru allt í lagi og aðbúnaðurinn í góðu lagi. En dagskráin var svakalega stíf, vaknað eldsnemma eða farið beint úr lestinni á fundi. En ferðalagið gekk mjög vel og það kom mér á óvart að dagsráin stóðst einnig þó svo að hún væri svona þétt. Það var svakalega kalt og loftið mikið mengað, núna finnst mér loftið í Shanghai hreint. Það var oft sem manni sveið í augun og hálsinn á manni var eins og maður hefði setið í marga daga og keðjureykt.  Það var því alveg svakalega gott að komast til Shanghai, hlýtt, sól og bara allt svo notalegt hérna


Ferðalag framundan

Á morgun verður lagt í hann og haldið á ókunnar slóðir. Ég fer með næturlestinni til JiNan sem er höfuðborg ShanDong héraðs, held áfram til ZouPing, þaðan til Han Dian og loks til ShiHu. Tilgangur ferðarinnar er að kynnast sveitaþorpum í Kína, skoða verksmiðjur og kynnast opinberi þjónustu. Leiðtogar bæjanna taka á móti okkur og heimafólk er búið að bjóða okkur í mat.  Áður en ég kem aftur heim, til Shanghai, fer ég til Beijing, kynnist starfsemi norska sendiráðsins í Kína (vona að ég fái svigrúm til að fara einnig í íslenska sendiráðið, en dagskráin er mjög þétt), eins fer ég í heimsókn á mannréttinda skrifstofu Sameinuðu þjóðanna. Ég tek ekki tölvuna með enda efast ég um að það sé tölvusamband þarna í sveitinni og ég ætla að ferðast mjög létt, einungis einn lítill bakpoki sem á að rúma það sem ég þarf.  Þegar ég kem heim verður einungis vika þangað til Addi kemur til Shanghai og ég veit að hann er eins og ég farinn að telja daganna.

 Í gær fór ég aðeins niður á Dulonlu (borið fram svona) og aldrei þessu vant var þar ekki mikið af fólki, þrátt fyrir að það væri föstudagur enda rigning, samt varla rigning bara smá úði.

Kaffihús í Dalunlu tileinkað gömlum kvikmyndum

 

En það var líf og fjör á matarmarkaðinum og greinilegt að endur átti að vera í helgarmatinn. Þarna var hægt að kaupa bæði lifandi endur og einnig fulleldaðar.

Þessi maður var að selja endur og hana,Endurnar látnar hangaEndur tilbúnar á diskinn
Fólk að borða endur

Gamli bærinn

Í Shanghai er mjög frægur garður Yuyuan garður sem Pan fjölskyldan lét gera á Ming tímabilinu. Það tók 18 ár að búa hann til og í dag þá er hann varðveittur sem dæmigerður garður frá þessum tíma. Þessi garður er í gamla bænum í Shanghai og er allt í kringum hann gömul hús þar sem í dag eru aðallega verslanir. Umhverfis gömlu borgina voru á sínum tíma veggir en þeir voru síðar brotnir í burtu. Ég er búin að gera tilraun til að fara í þennan borgarhluta um helgi, en þá er bara maður við mann og alveg ómögulegt að komast nokkuð. En í dag var lestrarfrí í skólanum og því var um að gera að drífa sig strax eftir hádegi að skoða. Það var mikið af fólki og mjög mikið af ferðamönnum. Kínverska óperan var með sýningu þarna og það var gaman að fylgjast með. Gott að vera svona hávaxin eins og ég er (er reyndar að kynnast því í fyrsta skipti núna að vera með eindæmum há), en ég gat bara horft yfir mannfjöldann og sá vel á sviðið. Sumar söngkonurnar sem komu fram sungu ekki sjálfar heldur voru aðrar konur með hljóðnema og sungu fyrir þær, en þær voru þó ekkert að fela það. En mjög fallegt og gaman að skoða sig þarna um. Mikið af gullbúðum og antikbúðum, en ég var nú lítið að versla.

Allt annað umhverfiGömul húsTjörn, eiginlega eins og heima

Fullt af fólki


Kong Shéng Yí

Já, ég er komin með nýtt nafn, hérna heiti ég Shéng Yí sem merkir Helga Kristín, svona allavega næstum því og Kong er fyrir Kolbeins. Sama ættarnafn og Konfísíus var með, ekki slæmt það.

En í dag ákvað ég að gera eitthvað róttækt í þessum pöddumálum og úðaði herbergið með einhverju sem heitir pest rest, bara spurning hvort það virki. Það var hræðileg lykt af þessu og var ég því úti eftir skóla og tók myndavélina með eins og alltaf.

Það er svo skemmtileg matarmenning hérna í mínu hverfi. Konurnar sem eru á fyrstu myndinni eru með pínulítinn veitingastað við hliðina þar sem ég bý. Ég hef ekki borðað hjá þeim en þarna eru þær að útbúa kvöldmatinn. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki borðað þarna er nú aðallega sú að þær nota sömu balana til að fara í fótabað, að loknum vinnudegi, og þær eru að nota til að skola grænmetið. Kannski er þetta gert alls staðar en ég hef bara séð það hjá þeim.

Það eru grænmetismarkaðir úti um allt og mjög ferskt og fallegt grænmeti og ávextir til sölu. Hneturnar eru líka girnilegar að sjá og eru þeir með svona stóra ofna með snúningi til að rista þær. Það er mikið úrval af fiski og hægt að kaupa hann lifandi úr kerum, það er ekkert mál að gera að honum, það er bara gert úti á götu. Síðan eru alltaf menn að útbúa poppkorn og nota svona físibelgi sem þeir hita yfir eldi og maísinn í og þá poppast.

En síðasta myndin er dæmigerður matseðill, þannig að þó að maður gangi innan um allt hráefnið sem verið er að nota á matsölustöðunum þá er ekki hlaupið að því að panta. Bara tákn á vegg og ég sé bara myndir, kann ekki að lesa og það er slæmt, þó það bjargist alltaf.

Verið að undirbúa kvöldmatÞað er allt í ávaxtamörkuðumHnetusölur

Verið að rista hneturGert að fiskinum úti á götuHann er að hita svona eins og fýsibelg og poppar svo í honum

Svona eru gjarnan matseðlarnir

Þeir nota sumir talnagrindur

Ég fór á áhugaverðan fyrirlestur í dag um málefni Taiwans, það eru reyndar áhugaverðir fyrirlestrar og fleirri en einn á hverjum einasta degi, en málefni Taiwans voru skoðuð frá öðru sjónarhorni en við erum vön að heiman.

Arthúr að borða hæsnalappirÍ hádeginu fórum við norðurlandabúarnir á mjög áhugaverðan veitingastað og ef þið skoðið myndina þá sést kannski hvað hann Arthúr er að borða en einn réttanna var hænsnalappir. Einhverja hluta vegna þá bara langaði mig ekki að smakka. Það voru náttúrlega margir fleiri réttir en einhvern vegin tekst okkur alltaf að panta vambir, en þær eru í mareneringu og ekkert sérstaklega góðar, bara eins og utan af slátri.

 

 

CIMG1223Á leiðinni heim í dag þá kom ég við í apóteki og sá í fyrsta skipti notaða talnagrind við að reikna út verðið á lyfjunum sem ég var að kaupa. Innkaupin gengu vel, en ég þurfti að kaupa meira af ofnæmistöflum þar sem skordýrin virðast alveg elska mig eftir að þau áttuðu sig á að ég væri komin. En það er að kólna og þá hljóta þessi litlu grey að hverfa. Ég tók með mér ofnæmislyf að heiman og sýndi fólkinu í apótekinu en líkast til hafa þau ekki kunnað ensku því þau höfðu ekki hugmynd um hvers konar lyf þetta væru þó svo að innihaldsefnin stæðu á umbúðunum. En eftir smá svona útskýringar frá mér ekki þó á kínversku bara svona handapat (ég lýsti flugu sem kæmi að bíta mig og sýndi þeim svo bitin),þá skyldu þau og ég fékk rétt lyf, því innihaldsefnin eru einnig á ensku á umbúðunum.


Shanghai er stór

ShanghaiShanghai er alveg svakalega stór borg. Hún er svo stór að maður áttar sig bara ekki á því. Það er fólk út um allt og alveg sama á hvaða tíma maður er úti þá er alltaf mikið af fólki. Verst að hafa ekki komið fyrr og séð breytingarnar. Á síðastliðnum fimmtán árum hafa orðið stórfeldar breytingar hérna. Kínverjarnir eru að byggja upp í loft í bókstaflegri merkingu og hafa byggt mörg háhýsin. Ég er ekki að tala um eitthvert háhýsi eins og er að rísa í Smáranum heima, nei alvöru háhýsi og eru þeir núna að byggja eitt 100 hæða. Það er gert með fjármagni frá Japan, en það á að hýsa japanskan fjármálamarkað. Þeir eru ekkert að byggja eitt og eitt háhýsi, nei á síðastliðnum árum hafa þeir byggt 4000 háhýsi. Ef þau væru í Eyjum þá væri næstum því eitt háhýsi á mann og það risa háhýsi. Á tímabili þá voru 1/4 allra byggingarkrana heimsins hérna í borginni. Það er búið að ákveða hvernig borgin kemur til með líta út og maður getur séð líkan af borginni hérna á safni niðri í bæ. Og já þeir ætla að setja flugvöll útí sjó og byggja eyju. Framkvæmdunum við borgina er hvergi nærri lokið og er alls staðar verið að byggja. Heilu svæðin girt af, það gamla rifið og svo bara byggt nýtt.

göturnarGatnakerfið er líka margbrotið og það er ótrúlegt að það var byggt á 3-4 árum. Það þurfti að flytja yfir milljón manns í burtu til að koma gatnakerfinu fyrir, en það er svo stórt og á svo mörgum hæðum. Já þetta er allt alveg svakalega stórt og frábrugðið því sem ég þekki að heiman.


Notalegur sunnudagur

Það er alltaf gott að eiga langan sunnudag og því er ekkert öðruvísi farið hérna í Shanghai. Við fengum okkur góðan göngutúr í morgun því við erum búin að uppgötva indæliskaffihús hinum megin við háskólalóðina. Þar er m.a. framreiddur morgunverður og hægt að fá mjög gott kaffi. Ég ákvað að verja deginum við lestur og skriftir og er svona eiginlega alveg búin að ákveða rannsóknarefnið svo ég notaði daginn til að skoða heimildir, en sé að líklega verð ég að taka mikið af viðtölum. Ég bjó til fyrstu grind af rannsókninni og hún lítur bara býsna vel út á blaði.

 Indverjar að dansa á indverska staðnum

Á föstudagskvöldið fórum við á Indverskan stað, stað sem minnst er á í Lonley planet bókinni og er vel þess virði að heimsækja. Kínverjarnir höfðu aldrei áður farið á Indverskan stað og voru bara frekar hissa á því hvernig okkur dytti í hug að fara á þannig stað, þar sem Indverjar væru svo fátækir. Þarna var borðað með hnífapörum og nú tók það ekki langan tíma fyrir okkur vesturlandabúanna að borða, gófluðum í okkur matnum en Kínverjarnir voru lengur. Eftir matinn fórum við á mjög sjabbý bar hérna í Shanghai sem selur ódýran bjór og það finnst norðmönnunum mikill kostur. Barinn var pakkaður með norðmönnum, en ég fór fljótlega, þetta var ekki þannig bar að íslendingur léti sjá sig þar.

En mikið er gott að hafa internetið. Það gerir fjarlægðirnar svo miklu minni. Í gær þá voru Erna og Halldór í kaffi hjá Adda og ég var bara með í spjallinu í gegnum Skype. Addi setti tölvuna á borðstofuborðið og var með kveikt á myndavélinni og þá var ég komin með í spjallið, frábær tækni. Ekki svo langt síðan að svona samskipti voru ómöguleg.


Heilsugæslan

Skólinn sem ég er í er með það sem kallast hérna Danwei kerfi. Það er félagslegt kerfi þannig að þegar þú ert í þessu samfélagi skólans þá er hugsað um þig. Þannig geta starfsmenn fengið húsnæði og aðra þjónustu. Þangað til nýlega þá urðu þeir að vera í kerfinu en þurfa þess ekki lengur. Einn hluti af þessu kerfi er að það veitir heilbrigðisþjónustu. Reyndar eru skipuritin hérna mjög örðuvísi en við eigum að venjast og er þessi skóli mjög hátt í skipuriti landsins, jafn hátt og ráðuneyti heima á Íslandi og er til að mynda yfir Sjúkrahúsi hérna í Shanghai en ég á eftir að kynna mér betur skipuritin hérna. En í dag þá fór ég á heilsugæsluna í skólanum. Ég hafði fengið skordýrabit á handarbakið svo sem ekki nýtt að ég fái bit, en ég var orðin svakalega bólgin og langaði að vita hvort þeir væru með einhverjar töfralausnir hérna í Kína. Auðvitað er ég vel birg af ofnæmis-töflum og kremum frá Íslandi en það tekur nokkra daga að virka. En á heilsugæsluna fór ég ásamt einum Kínverja og Svölu frá Finnlandi en hún er búin að vera mjög lasin. Heilsugæslan er mjög stór og mjög skítug. Það var fullt af fólki að vinna og fórum við beint inn á skoðunarherbergið en við hliðina á því sá maður inn í sjúkrastofu og ég þarf að gera mér ferð þarna aftur til að taka myndir. Þetta var ótrúlegt. Skítug járnrimlarúm með moskítónetum yfir bara eins og ég veit ekki hvað, jú þetta var alveg eins og maður sér í myndum frá þróunarlöndunum. Það var svolítið að gera en fljótlega kom röðin að okkur, svakalega margir að vinna þarna mér fannst starfsfólkið eigninlega vera fyrir hvort öðru. Kínverjinn útskýrði fyrir lækninum hvað væri að. Læknirinn setti hendina á ennið á mér leit á hendina á mér, potaði aðeins í og hellti loks spritti yfir. Sagði mér að halda hendinni uppi, þetta væri ekki neitt og yrði orðið gott á morgun. Mjög gott ég er strax betri en komst einnig að því að þeir eiga líklega engin töframeðul við þessum leiðindabitum. Svala fékk svipaða meðferð nema, hann setti hendina á ennið og svo átti hún að gapa og fékk lyfseðil. Hún mátti ráða hvort hún keypti lyfin beint af lækninum eða færi í apótekið en var jafnframt sagt að þar væru lyfin miklu dýrari. Svo auðvitað vildi hún kaupa lyfin beint en þá voru þau ekki til svo hún varða að koma aftur eftir þeim. Þjónustan kostaði okkur ekki neitt þar sem við erum í þessu Danwei kerfi, fyrir þá sem eru ekki í svona kerfi er víst mun flókanara að komast til læknis. Svo núna er ég bara að nota kremin og töflur að heiman og verð vonandi orðin góð eftir nokkra daga. Verð greinilega að nota moskítófæluna þrátt fyrir að hér sé ekkert svo heitt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Helga Stína bloggar frá Kína

Höfundur

Helga Kristín Kolbeins
Helga Kristín Kolbeins
Ég er í námsleyfi og nota það til að ljúka MPA námi mínu við HÍ. Þessa stundina er ég við nám í kínverskum stjórnmálum og stjórnsýslu við Fudan Háskóla í Shanghai.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Jin Mao 88 hæðir
  • Jin Mao hægra megin, hæsta bygging í heimi vinstra megin
  • ...-1_cimg1849
  • Svakalega hátt
  • Hæsta bygging í heim, séð frá 87 hæð

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband