Kínversku félagarnir

Í sunnudagskvöld  var ég að spjalla við kínversku félaga mína sem eru með mér á námskeiðinu.
Þeir voru mjög áhugasamir um Ísland og voru mjög uppveðraðir vegna þess að þeir höfðu átt kost á því að hlusta á fyrirlestur forseta okkar hr. Ólafs Ragnars fyrr í mánuðinum. Þeim þótti frábært að þjóðhöfðingi lands skyldi hafa fyrir því að halda fyrirlestur fyrir þau um land og þjóð. Þeir spurðu mikið um forsetann hvort það væri virkilega þannig að hann væri svona alþýðlegur á heimavelli. Þetta sýnir hvað það er mikilvægt fyrir okkar landkynningu að forsetinn fari í eigin persónu á staðinn og kynni land og þjóð, það er greinilega eitthvað sem Kínverjar eiga ekki að venjast. 
Þeir spurðu mikið um hvernig væri að búa í reyklausu landi og hvernig við færum eiginlega að þegar kæmi að eldamennsku. Ég setti inn mynd í Shanghai myndasafnið sem tekin er í mötuneyti skólans. Ég sagði þeim náttúrlega frá raforkunni og hvernig hennar væri aflað og hvað það væri frábært að geta notað rafmagnseldavélar við eldamennsku, ég gat þess ekki að það væri í tísku að vera með gaseldavélar. Þessir kínversku félagar mínir eru allir undir þrítugu og allir einkabörn, foreldrar þeirra hafa fylgt fjölskyldustefnu yfirvalda. Það eru foreldrar þeirra sem borga fyrir námið. Einn pilturinn sagði mér að hann væri úr sveit, foreldrar hans væru hvorki fátækir né ríkir, ynnu báðir hjá ríkinu og þeim væri mikið kappsmál að hann hefði það betra en þau. Hann sagði mér einnig að þar sem hann væri kominn í framhaldsnám þá þyrftu þau ekki lengur að borga skólagjöld, einungis framfærslu sem væri alveg 500 yuan á mánuði (tæpleg 5000 iskr.).  Það er mikil samkeppni til að komast inn í skólann og  er Fudan háskóli með þeim erfiðustu að komast inn í, skólinn er númer þrjú á listanum yfir virtustu háskólana í Kína, hinir tveir eru í Peking. ( 1-2 af hverjum 5 komast yfirleitt inn í háskóla, heimildum mínum bar ekki alveg saman, hinir þurfa að finna vinnu og það er mjög erfitt, þrátt fyrir að mér sýnist einkennandi hvað allt er yfirmannað). En fyrst honum tókst það þá eru foreldrar hans mjög stoltir af því að geta framfleytt honum og eru sértaklega stolt yfir að hann skuli stunda nám við Fudan. Hann er í meistaranámi í  norrænum fræðum og vonast með því að geta fengið góða vinnu helst í tengslum við norrænu þjóðirnar. Hann hefur ekki ferðast neitt en dreymir um að komast til Íslands og sjá náttúrufegurðina og hvað þar er lítið af fólki. Hann spurði mig um hvernig það væri á Íslandi hvort foreldrar hættu virkilega að borga með börnunum sínum þegar þau væru orðin 18 ára. Ég sagði honum að það væri ekki svo á mínu heimili en lögin segðu að foreldrar hefðu ekki framfærsluskyldu eftir að börnin yrðu 18 ára.


Herbergisraunir

Þegar ég sótti um námið í Kína var gefinn kostur á að velja á milli herbergja, annars vegar einsmannsherbergi með sérbaðherbergi eða þá að deila baðherbergi með öðrum (tvö sérherbergi eitt baðherbergi). Ég pantaði herbergi með sérbaðherbergi, eftir mikla umhugsun, þar sem það munaði heilum 300 is.kr. á sólarhring hvað það var dýrara. Fljótlega eftir að ég hafði látið vita um þessa ósk mína fékk ég bréf frá skólanum. Þar var greint frá því að allir þátttakendur verði að fá herbergi þar sem baðherbergi yrði deilt með öðrum og að skólinn muni greiði gistinguna. Þar var einnig tekið fram að þegar við kæmum á hótelið þá yrði okkur raðað niður á herbergin.

Þegar ég skrái mig inn á hótelið á föstudag, þá er eitthvað vesen með herbergið og þeir láta mig hafa einsmanns herbergi með sérbaðherbergi, það er samt lítið tveggja manna herbergi og alveg ágætt en algjörlega laust við allt sem kallast íburð, enginn fataskápur og lítið skrifborð. Mér var jafnframt sagt að ég ætti að skipta um herbergi á sunnudag. Ég mætti því í hótelafgreiðsluna á sunnudagsmorgni til að fá nýtt herbergi.  Þá skilur enginn neitt, 10 manns að afgreiða í afgreiðslunni og biðja mig að koma seinna, sem ég og geri.

Þá er ég spurð hvers vegna ég vilji skipta um herbergi og ég segi að þau hafi sagt mér að gera það, það könnuðust þau ekki við. Síðan er spurð hvort ég vilji deila herbergi með einhverjum og ég segi að ég vilji sérherbergi en deila baðherbergi, þá er ég spurð með hverjum og þegar ég segi þeim að ég hafi bara ekki hugmynd um það, þá komust þau að því að ég væri stórlega skrýtin. Einhver hvít vestræn kelling í sérherbergi vilji fá að deila herbergi bara með einhverjum, bara til að gera eitthvað. Svipurinn á þeim gaf það alveg til kynna. Ég sé þá bak við þau listann með nöfnum okkur sem erum í náminu og bendi þeim á hann og á nafnið mitt. Þá spyrja þau hvað ég ætli að vera lengi og þegar ég segi þeim það þá bara dæsa þau. Fara með listann og halda fund. Bara sjimú sja sem gaman væri að vita hvað þýðir. Eftir drykklanga stund þá er ég aftur spurð hvers vegna ég vilji skipta um herbergi. Ég segi þeim að ég vilji ekkert endilega skipta um herbergi, mér hafði bara verið sagt að ég þyrfti að skipta um herbergi. Þá spyrja þau, er herbergið ekki allt í lagi, ég segi jú og þá gera þau eitthvað við lykilinn og segja að herbergið sem ég fékk á föstudag verði bara herbergið mitt. Daginn eftir kemur til mín kona úr afgreiðslunni og segir mér að ég skuli skipta um herbergi á morgun, þ.e. í dag og viti menn ég fékk miklu betra herbergi meira að segja með stærra skrifborði, fataskáp, setustofu og svölum. Að vísu þarf ég að deila baðherberginu með stúlku frá Noregi. Loksins gat ég pakkað upp úr töskunni og komið mér almennilega fyrir.


Komin til Kína

Ferðalagið 

Ferðalagið gekk vel. Ég tók fyrst Herjólf upp á fasta landið, síðan var það flug til Frankfurt og þaðan áfram til Shanghai. Flugið var ótrúlega langt en gekk vel. Það var alveg troðið í flugvélinni og voru það aðallega Kínverjar. Þegar komið var á áfangastað gekk innritunin inn í landið áfallalaust. Fyrir utan flugstöðina fékk ég leigubíl á hótelið, þar sem ég ætla að búa næstu tvo mánuði. Hótelið er hreint, með klósetti, internettenginu sem er góð, allavega núna á mínu herbergi. Rúmið er ótrúlega hart, það er eins og að sofa á gólfinu, en annað hvort venst ég því eða ég fer í Ikea og kaupi mér yfirdýnu. Ég var komin á hótelið upp úr hádeginu og var ótrúlega þreytt. Ég svaf lítið í Reykjavík og eins í flugvélinni. En ég ákvað að reyna að halda mér vakandi og skoða aðeins umhverfið þar sem ég ætla að dvelja  næstu mánuði.

Á áfangastað 

Það er allt svo stórt, nema fólkið, það er lítið. Það talar enginn ensku. Ég var með upplýsingar á kínversku frá skólanum sem hjálpuðu algjörlega. Þegar ég var búin að bóka mig á hótelið þá  ákvað ég að fara að fá mér að borða og viti menn matseðilinn var  líka á ensku, ég átti ekki von á því. Ég fékk mér kjúklingarétt og fékk skammt fyrir 4-5 og var hann góður, skemmtilegt að upp í skóla er alltaf mikið verið með allskonar uppskriftir og fyrir nokkrum árum þá vorum við að prófa einhverja rétti með skrýtnum pipar sem Systa tók að sér að redda frá Reykjavík, en rétturinn sem ég fékk hérna fyrsta daginn var einmitt sá kjúklingaréttur. En þegar þjónustustúlkan sá hæfni mína í að borða með prjónum þá kom hún með skeið.

Ég svaf vel á þessari hörðu dýnu, sturtan er góð á hótelinu, nóg af heitu vatni en lítill kraftur á því. Ég ákvað að vera eins og heimamaður og fá mér morgunverð úti á götu. Hér er allt fullt af götusölum sem selja mat sem þeir eru útbúa á götunni. Ég fékk mér einskonar bollu sem var seig með einhverju grænu innan í, fyrsti bitinn var ekki góður, en næsti allt í lagi. Bragðið ekkert svo vont og eftirbragðið mjög gott. Þá var komið að því að fara í leiðangur og var ég með kortið sem skólinn hafði sent mér. Ég byrjaði á því að finna leiðina í skólann. Það gekk vel og núna komst ég af því, hvers vegna ekki var hægt að stytta sér leið, það er vegna þess að það þarf að fara yfir götu. Risa risa risa stóra götu og það er ekki hægt hvar sem er. Ég var hálf smeyk við að fara yfir og endaði með því að elta Kínverja yfir götuna, það eru svo margar akreinar og svo mikið af bílum. En aðeins seinna sá ég hvar voru umferðaljós og ég ætla þar yfir næst. Skólinn er ofboðslega stór og með skemmtilegum garði, þar sem er mikið af trjám. í þessum garði er mjög gott andrúmsloft og maður finnur ekki eins fyrir menguninni sem er ógurleg og er það líklega vegna trjánna. Það var mikið af nemendum í garðinum og tók ég sérstaklega eftir hvernig þeir voru að læra, gengu um og þuldu eins og þeir væru að læra utanbókar. Í háskólagarðinum fann ég búð og ætlaði að kaupa vatn en það sem ég hélt að væri vatn var einhver vítamíndrykkur með mandarínubragði. Frekar illa komið fyrir manni þegar maður þekkir ekki vatn. Fyrr en varir var komið að því að fá sér hádegismat og skoðaði ég hjá götusölunum en ákvað að finna bara einhvern huggulegan matsölustað. Ég valdi einn í fallega bleiku húsi og var vel tekið á móti mér, þjónustustúlkan blabaði eitthvað og ég skildi ekki orð og engar upplýsingar voru á ensku. Hún benti á eitthvað borð og ég skildi það sem svo að í hádeginu væri hlaðborð og leist bara vel á. Ég fékk jasmínte sem er ótrúlega gott hérna og fór svo að fá mér að borða, ég var orðin mjög svöng þrátt fyrir bolluna um morguninn. Hlaðborðið hafði litið vel út í fjarska en það var hlaðið hráu grænmeti og ég fylgi þeirri reglu að borða bara soðið grænmeti í svona fjarlægum löndum. Hænsnalappir og innyfli. En það var líka susi sem ég varð að fá reglan um hrámeti víkur þegar kemur af því og ég fann líka pottrétt sem var í lagi og banana. Þegar ég var orðin södd og ætlaði að fara að borga þá kom þjónustustúlkan með nýjan disk. Ég hugsaði bara, mikið liggur þeim á að fá borðið, en nei þá kom í ljós að máltíðin var rétt að byrja því nú streymdu að kokkar með einhverja pinna sem þeir skáru af fyrir framan mig. Hlaðborðið var einungis forréttur. Ég var orðin södd en smakkaði nú samt sumt af þessum pinnamat sem var virkilega góður.  Einn af réttunum var þó pizza og álegið var kokteilávextir úr dós. Eftir þessa miklu máltíð hélt ég áfram skoðunarferðinni og fór meðal annars í tölvubúð og ég hef aldrei áður komið inn í aðra eins búð og ákvað að fá aðstoð við að versla í fyrsta sinn.

Um kvöldið fórum við 7 saman sem erum í náminu út að borða, virkilega skemmtilegt fólk á öllum aldri (5 norðmenn, 1 finni og ég).  Einn norðmannanna er að kenna við Fudan, talar kínversku og hann pantaði matinn. Við fengum allskonar rétti m.a. snigla en þeir eru settir í edik í skelinni, þannig að maður setur snigilinn upp í sig brýtur skelina af með tönnunum og spýtir. Ekki matasiðir sem við eigum að venjast. Sniglarnir voru ekki góðir. En hinir réttirnir voru ágætir. Ég var því mjög södd þegar ég fór að sofa.


« Fyrri síða

Um bloggið

Helga Stína bloggar frá Kína

Höfundur

Helga Kristín Kolbeins
Helga Kristín Kolbeins
Ég er í námsleyfi og nota það til að ljúka MPA námi mínu við HÍ. Þessa stundina er ég við nám í kínverskum stjórnmálum og stjórnsýslu við Fudan Háskóla í Shanghai.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Jin Mao 88 hæðir
  • Jin Mao hægra megin, hæsta bygging í heimi vinstra megin
  • ...-1_cimg1849
  • Svakalega hátt
  • Hæsta bygging í heim, séð frá 87 hæð

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband